Það sem þarf til að yrkja ljóð
Hugskotsböl og hlandvolgt öl
og hjarta í tilvistarkreppu
stundardvöl í sálarkvöl
án sárrar andgiftarteppu
Draumurinn
Darraðardans í draumi ég stíg
á dánumanns beinabrotum;
villtan Vals, uns ég lyftist og flýg
á velþöndum vængjum yfir djúpan gíg
og fæ þar að eygja mitt eigið víg
engjast og kominn að þrotum.
Vesæll og veikburða niður ég hníg
og vakna á koddanum votum.
Hjólastóll og blásýra
Af þungu lífi og þungum limum
þunga segi ég sögu í dag,
af dreng sem að dáði og dreng sem að þráði,
dagsins léttleika andartak.
Hans von var vís, þó engin von þar væri,
vonlaus vitund hans starði á eitt;
Laus frá fjötrum, laus frá fjórum,
lausnarseyði hans væri seytt.
Það brenndi hans hold og það brenndi hans háls
í brunnu öskrinu hvarf hans raust,
en lífsins bót var það lífsins bál,
nú lifði sálin endalaust.