Eitt sinn heyrði óma
undurfallegt lag,
af sönnum kærleik sungið
við sumarlegan brag.
Og söngvarinn var rámur
en röddin samt svo tær
að yfir fjöllin færðist
fagurrauður blær.
Hún tendraði með töfrum
tunglsins silfurljós,
sem vöktu vært til lífsins
visna dýrðarrós.
Sú fegurð var svo fjarstæð
sem fyrir augun bar.
Mín sál í sætum draumi
sveif um loftin þar.
Mig sveipti sínum örmum
sumarnóttin þýð.
Og friðsæl sást í fjarska
fögur stúlka og blíð.
Hún til mín gekk í takti
við töfrum slunginn söng.
Svo leiddumst við í laumi
um lífsins gylltu göng.
Og hönd í hönd við drukkum
öll heimsins bestu vín.
Hún er ósk míns hjarta.
Hún er Óskin mín.