Martröð
Og þegar lífsins lugtir aftur
lýstu upp hinn rétta veg,
þá var allur þrotinn kraftur…
Þú hélst áfram. Ekki ég.
Stoltur gekkstu gullna veginn,
gæfan bar þinn verndarskjöld.
Etir hélt mér hinum megin
heldimm nóttin, nístingsköld.
Nú stóð ekki neinn við hlið mér,
nema vofa gærdagsins.
Eymdin blasti ísköld við mér
eins og klökkvans kaldi prins.
Stjarfur reyndi að standa á fætur,
staulast fram á eftir þér.
Blauður eins og barn sem grætur,
beinin skulfu og skröltu í mér.
Upp þú flaugst, til hæstu hæða,
þér himins veittust guðalaun.
Aftur datt ég, en sú mæða,
illa þoldi ég þessa raun.
Hel tók völd í huga mínum,
hatur frá þér streyma fann.
Illkvittnin úr augum þínum
eins og skrattinn skein og brann.
Jökulkaldan hæðnishlátur
heyrði óma úr munni þér.
En ég er einskis eftirbátur,
enginn gerir gys að mér!
—
Skyndilega ljós ég merkti
og leit þá undurfögru sýn
að blítt og snoturt kveikti á kerti
kona nokkur - móðir mín.
- Tími er kominn til að vakna,
tjáði hún mér, sem alsæll var,
enda mun ég aldrei sakna
ofangreindrar martraðar.
Á fætur stökk, mér létti ei lítið,
því lífið sjálft fer betri veg.
Þótti líka þvert og skrítið -
þú í öllu betri en ég!
Því kappi við þig þarf ekki að etja,
enda telst þú vesalt frík.
Í alvörunni er ég hetja -
engin ræfilslúðatík.