úr rústunum skjögra brott sálirnar góðar
svífandi fölleitar upp - þar skín ljós
í duftinu hvíla enn púkaverur óðar
en á botninum kafnar ein útsprungin rós…

í háloftum hljómar englavængja þytur
horfi ég upp þar sem ástvinir fljúga
en fyrir hvaða sök skal ég sitja hér bitur?
mín synd var sú að ég vildi ei trúa…

guðleysisverur og synduga fólkið
situr hér eftir og sér eftir því
að hafa ekki hlustað og vera ei hólpið
og horfin er von um að lifa á ný…

úr himnum í fjarska heyrist fallegur hljómur
og hörpurnar englarnir hlæjandi strjúka
hér niðri í víti svo hroðalega tómur
hugsa ég aðeins um engilinn mjúka…


-pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.