Vinur minn, hann starfar - sem símasölumaður
og selur gsm- og nettengingar lon og don.
Hann reynir hvað hann getur - og brögðum beitir glaður
og boðar þeim sem svara - tilboðsgróðavon.

Þannig vill að starf hans gengur stundum vonum framar
og stórar sölur koma inn á sölustjórans borð.
En oft vefst honum tungan - um tennur, svo hann stamar
og tíðum notar skelfilega frasa og vitlaus orð.

Hann gáskafullur hringir - og góða kvöldið býður.
“Er gemsareikningurinn hjá þér ekki allt of hár?”
En harla fár ef nokkur - er neitt samvinnuþýður.
“Ég nenni ekki að skipta um símafyrirtæki í ár.”


Hann hringir, hann hringir
en er hunsaður af öllum.
Það sinnir enginn sjálfviljugur
sölumannsins köllum.

Hann reynir, hann reynir
uns raddböndin bresta.
Svona tekst jú sumum
sölurnar að festa.


Stundum veitir starf sem þetta gleði,
þótt stöku maður kunni - að tapa sínu geði.
Eitt er það sem þykir mörgum sannað:
Það sem hér er leyft - er annars staðar bannað.

En þetta er jú bara starf eins og hvað annað.