Veðrið var svo rósrautt
og seiðandi úti
ég var sofandi
fljótandi inní æðakerfi svefnsins
horfandi á rauðu draumkornin
sveimandi í kringum mig
rétt áður en ég greip eitt þeirra
og gæddi mér á.

Mér leið svo eins og ég læsi bók
sem hafði bara eina blaðsíðu
en þessi blaðsíða
náði út fyrir sjóndeildarhring
og var full af litríkum stöfum
er léku sér á blaðsíðunni
áhyggjulausir.

Ég las um nokkur ævintýr
og gnægð sagna
sem voru kannski sannsögulegar
og sagaðar í rétt mynstur
virtust smellpassa í öll þau form
sem meðvitundarlaus vitund mín bjó til.

En svo dökknaði blaðsíðan
illt var í aðsigi
ævintýrið þykknaði, með rauðbleika skýinu
geystist um í æðakerfinu
sem óðara tók að þrengjast og verða að
martraðastíflu.

Ég fór að titra
hóstaði út úr mér rauða draumkorninu
sem var orðið svart.

Ég hljóp skelfdur burt
ráfaði villtur um síðuna
hljóp á bókarkápuna
sem skelltist á fingur mína
og feykti mér út í svalandi gust hins vakandi heims
sem geispandi stutt, í samúð með svaðilförum mínum
máði út ómeðvitað og vitað
skrifaða svefnsögu mína
sem hvarf með bókinni
út í rauðbleika nóttina.
—–