Í dag, 21. janúar, eru liðin 113 ár frá fæðingu þjóðskáldsins okkar góða - Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi.
Davíð naut mikillar hylli í lifanda lífi enda átti hann hana fyllilega skilið. Fyrstu ljóðabók sína, Svartar fjaðrir, gaf hann út árið 1919 - 24 ára gamall. Með hanni má segja að hann hafi ort sig inn í hug landsmanna og hjörtu. Meðfylgjandi mynd lét Davíð taka og prenta í tilefni útgáfu Svartra fjaðra.
Ljóðabækur hans urðu tíu talsins auk þess sem hann gaf út fjögur leikrit og eina skáldsögu - Solon Islandus. Hvert verka hans er bókmenntaafrek út af fyrir sig og íslenska þjóðin stendur í ævarandi þakkarskuld við þetta merka skáld.
Í dag skulum við minnast eins af okkar allra bestu skáldum. Meðfylgjandi er eitt af mínum uppáhaldskvæðum Davíðs.
Til eru fræ
Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná,
og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,
og von sem hefir vængi sína misst,
og varir, sem að aldrei geta kysst,
og elskendur, sem aldrei geta mæst
og aldrei geta sumir draumar ræst.
Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,
og lítil börn, sem aldrei verða menn.