Eitt sinn kunnu íslensk skáld að skrifa
og skópu ljóð um vora fósturjörð.
Engum dylst að doðrantarnir lifa,
sem Davíð orti um fagran Eyjafjörð.
Þeir ortu um fegurð fjalla og náttúruna
og fólk sem hrærðist um í gleði og sorg
Þeir ortu um landsins tíðaranda og trúna
og Tómas orti um götur, stræti og torg.
Í guðsóttanum bitrir margir báðu
uns birti til - nú sól á himni skín!
Um Jesú Krist og Júdas margir kváðu,
en Jónas orti um ferðalokin sín.
En tíminn leið og kemur aldrei aftur,
því aldrei skrifa gömlu skáldin meir.
Máttur fylgdi kvæðum þeirra og kraftur
nú kann ei neinn að yrkja eins og þeir.