ég man
ég man þegar ég og þú fluttum í stóru, nýju íbúðina
hvað við vorum hamingjusöm þá
svo missti ég vinnuna
og þú varðst veikur
og einn daginn komu þeir; svartklæddir með sólgleraugu og
við vorum sett á götuna
ég man þegar við fluttum inná mömmu og pabba
bjuggum í stofunni
og áttum engan pening
gerðum þau blönk
þú alltaf fullur
pabbi brjálaðist á endanum
henti okkur út
og við lentum aftur á götunni
ég man þegar við fluttum upp á háaloft hjá gamalli konu
og þegar ég fattaði að ég var ólétt
svo einn daginn datt ég í stiganum
og missti barnið
það var hvort sem er aldrei velkomið í þennan heim
því ekkert beið þess
við höfðum ekkert að gefa
ég man þegar ég varð aftur ólétt
og barnið fæddist
lítill strákur
en við sáum strax að eitthvað var að
og læknirinn sagði eitthvað sem við skildum ekki
og mamma sagði að þetta myndi lagast
en mér fannst eins og allir væru að glápa á okkur,
litlu óheppnu fjölskylduna,
hvar sem við vorum
ég man þegar þið voruð í boltaleik úti í garði
það var sól og hiti
og boltinn skoppaði út á götu
strákurinn var nýbyrjaður að labba
og hljóp út á götu á eftir honum
stór bíll kom akandi
og þú hljópst á eftir honum
og hvernig það endaði
ég man öskrin
gapandi svartnættið