Blómið
Sólin reis í dögun
Stakk eins og hnífur í augun
Vitstola, ráfandi á vegi einum
Dapur maður á vegi breiðum
en dimmum
Við vegarkantinn var blóm
Lítið, saklaust, bakað ljóðaóm
Við blómið var sandur og möl
Græn náttúra dagsins vaknaði föl
og guggin
Aldrei höfðu augu mannsins fegurð litið
Enda aldrei af veginum vikið
En hann sagði:
,,Margt áttu gott, litla blóm
fegurð þín fyllir mín hjartans tóm
og myrkur”
Ástina hljóðu hann í brjósti bar
minningar af því sem eitt sinn var
en konan sú er hlaut hinn stóra dóm
Lifir í brjósti hans sem lítið blóm
og saklaust
Vitstola maðurinn af veginum gekk
Blómið hann tók,
blómið hann fékk,
blómið hann braut
dansaði að veginum á ný en hnaut
og datt
Og vegurinn breiði fjarlægðist hann
Í fjarskanum þekkjum við vitstola mann
Í veglausu myrkri hann þarf að þjást
Hamstola, vitstola og þjáður af ást
og hatri
Lífið og ástina fær enginn falt
Dýrasta verði skal greitt fyrir allt
Þótt enn sértu skuldlaus um sinn
Á burtfarardeginum kemur reikningurinn
og dómurinn
Af veginum hverfur maðurinn þá
Því að lokum allir falla frá
Undir endann hlýtur maðurinn dóm
En við veginn vex sælt,lítið blóm
og saklaust