Loksins loksins loksins gat ég fengið mig til að klára þetta ljóð. Fyrri hlutinn kom út úr mér eins og gusa í febrúarmánuði, svo fraus allt í hausnum á mér og ég gat lítið gert nema horfa á blaðið sem ég krotaði línurnar á. Svo núna um daginn þá losnaði stíflan. Þetta er sjálfsagt það einlægasta sem ég hef samið. En hvað það er nú gott að vera nafnlaus hérna og geta birt hluta úr sálinni sinni hér :) Í stað hefðbundinnar gjafar um jólin er ég að hugsa um að gefa henni þetta ljóð.



Í heiminn ég fæddist rauður og þrútinn
nýkominn og farinn að kvarta,
æ sjáiði litla sæta labbakútinn
ætli hann vilji eitthvað að narta?

Ég augu mín opnaði og blasti við sýn
sem nam burtu tár mín og ekka
þú tókst við mér brosandi móðir mín
og gafst mér líf þitt að drekka.

Í veröld þessari virtist ég agnarsmár
en ekki í augum minnar móður
dag einn yrði nú mikill og knár
stór, sterkur og gáfaður.

Á leið minni lærði á heiminn,
hélt hann lítið mál
en gerði heilmörg mistökin
hruflaði hné mitt og sál.

Stóð ég upp aumur var mér vorkunn
þú hafðir mig allan tímann séð
þá réttirðu mér hönd þína og huggun
orð fyrir sálina, plástur á hnéð.

Brost þitt hlýjar, röddin blíð
líkt og sólin bjarta
móðurást þína mun ætíð
geyma í mínu hjarta.

Svo hraustur ég flýg úr hreiðri
heiminn höndum tek báðum
orð þín hef alltaf í heiðri
og fer eftir þínum ráðum.

Þú þerraðir mín tár
hreinsaðir mín sár
hélst mér í faðmi þér öll þessi ár
umvafðir mig ást og hlýju
og lýstir upp líf mitt að nýju.

Hvern dag sem ég vakna
ég hugsa ætíð til þín
ég þér líf mitt allt að þakka
ég elska þig að eilífu,
elsku móðir mín.


-zorglú
—–