Ég fæddist. Í rauninni þá lýsir þetta lífi mínu til þessa, ég endurfæðist á hverjum degi sem ný manneskja tilbúin til að breytast. En auðvitað verður ekkert úr þeim breytingum, til þess að virkilega að þora að breytast er ég of íhaldsöm.

Ég var skrýtið barn strax frá fæðingu. Þegar ég skaust út var ég organdi og hætti því ekki í dágóða stund, svona ár. Ég var skapmikil og fyrstu ensku orðin mín til míns enska föurs voru hjartnæm- “Go away!” En hann fyrigaf það og fljótlega gat ég sagt eldhús, bíll og aðra nytsama hluti.

Á leikskólanum var stelpa sem átti prinsessukjól sem mig langaði nú þónokkuð til að eignast. En í stað þess að taka kjólinn eða skemma hann fór ég að vera með vinkonu hennar og henni. Og nú var ég komin nógu nálægt kjólnum og fékk meira að segja að snerta hann stundum.
Ég átti kærasta á leikskóla, hann hét Hafsteinn og við sátum í rólunum allar stundir og kysstumst. Saklusir mömmukossar, en það er nú ágætlega mikið fyrir 3-5 ára barn.

Ég man lítið frá fyrsta bekk. Mér er minnistæðast þegar ein stelpan rak við og nokkrir hlupu út í glugga til að gá hvort þetta hefði verið bíll eða saklaus vindur.
í 4. bekk skipti ég um skóla og flokkaðist strax undir nörd, það er nú allt mömmu gömlu að þakka. Hún klæddi mig upp í leggings og of stórar peysur, með hárið sleikt niður eftir eyrunum. Ég var nú ekki nema 9 ára en öllu má ofgera. Svo um 12 ára aldurinn gerði ég uppreisn gegn fatasmekk mömmu fyrir börn og hef ekki litið til baka síðan.
í 8. bekk gerði ég kvikmynd um hinn margfræga Hrafnkel Freysgoða með bekknum. Það er hlutur sem ég vil helst ekki minnast á.

í rauninni er þetta ævisaga mín fram til þessa, í 9. bekk gerðist ekkert sem ykkur ætti að varða og 10. bekkur heur verið látlaus nema þá glæsileg keppni mín í Skrekk þar sem ég dansaði nakin fyrir alþjóð.
Ég læt ykkur vita þegar líf mitt tekur stakkaskiptum á ný; ef þið nennið þá að bíða í ca. 10 ár í viðbót….