Í dag dansaði sígaunastúlkan
sinn villta dans.
Ölvuð af hamingju víðáttunar
og ilmi vindsins á sléttunni.
Í fjarska líta fjöllin til himins
og út yfir sléttuna.
Dansinn dunar í hjartanu
og dynur þungt í söng þagnarinnar.
Yfir hvolfist endalaus himininn,
heiðskýr eða skýjaður.
Regn og sólskin, stormur eða logn
saman snúast í hyldjúpu hljómfalli.
Hring eftir hring eru stigin spor
sem ávallt áttu tilvist.
Og sléttan gleðst með fráum fótum,
frelsi hugar, fegurð lífsins.
Víðáttan tekur aldrei enda
og vindurinn er ávalt ferskur.
Vakir yfir ástin,
sem allt gefur en ekkert á.