Aleinn á ferli um miðdimma desembernótt
Allt er svo kyrrt, andrúmsloftið svo hljótt
Stjörnurnar blika í fjarska - eilífir kertalogar
Og í fjarska er eitthvað - eitthvað sem togar…
Norðurljósin blika svo skært í kvöld…

Ég finn leiðina yfir myrka steina - tyrfnar brautir
Kem um síðir inn í dimmar grenitrjáalautir
Þar sem ástirnar fornu áttu sér stað - í laumi
Og skuggar gamalla vera - líða fram í draumi…
Norðurljósin blika svo skært í kvöld…

Ég finn eitthvað elta mig - hljótt en andar heitt
Ég skimast óttasleginn í kring - en sé ekki neitt
Eyk hraðann - fætur mínir lyftast jörðu frá
En það nálgast mig samt - og starir mig á
Norðurljósin blika svo skært í kvöld…

Tárin leka niður kinnar mínar og svitinn bogar
Í hjarta mínu brennur hræðslan - skærir logar
Allt í kring rennur út í eitt og ég hrasa um stein
Nístandi sársaukinn sker holdið - inn við bein…
Norðurljósin blika svo skært í kvöld…

Það hikar og andar svo hátt - síðan það kemur
Skrímslið sem tekur börnin - sparkar og lemur
Ég gægist til baka - býst við að deyja fljótt
En augun grípa í tómt - og allt er orðið hljótt…
Og norðurljósin blika enn skært í kvöld…



Fuglarnir byrja að hljóma - syngja sín litlu ljóð
Skíman við sjónarrönd - birtist falleg og rjóð
Ég vakna með stírurnar í augunum - í fögru rjóðri
Ég minnist eltingarleiks - undan skepnu óðri
Hristi svalann úr mér - rís svo hægt á fætur
Brosi - hugsa um drauma þessarar nætur
Drauma er birtust mér - þegar ég svaf svo vært
Undir norðurljósahimni - sem blikaði svo skært…


-pardus-

Ég er alvarlega að spá í að láta þetta í ljóðabókina líka. Núna er ég kominn með 46 ljóð í stað 40 um daginn ;) Það ætti að duga, ekki satt?
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.