Skoooo… ég veit varla hvað ég var að pæla í gærkvöldi ;) Ég byrjaði að semja ljóð um sjálfsskoðun og svoleiðis en endaði á einhverju djö*** rugli ;þ
Þannig að… ef einhverjir eiga ættingja og/eða hafa gist sjálf á Kleppi eða átt við geðræn vandamál að stríða, þá er þetta alls ekki meint sem háð eða bögg út í geðveika… ok???
Allavega… þetta er STÓRFURÐULEGT ljóð, byrjar venjulega en endar á einhverri vitleysu… en what the heck!!!!! Lesiði það bara og segið hvað ykkur finnst ;) (það er reyndar frekar langt)


-Er ég súkkulaðikaka???-

…sítt rautt hár…
…blá augu…
…þráðbeint nef…
…of sítt skegg…
…mjóar kinnar…
…hrukkótt enni…
…ég…

stari á sjálfan mig – foreldra minna verk
og tala í hljóði – hver hlustar nema ég
spegilmyndin brosir við mér – svo sterk
ímyndaða línu – yfir andlit mitt ég dreg…

ég halla höfði og virði mig fyrir mér
allt andlitið virðist svo lítið og magurt
þó allt virðist vera á réttum stað hér
hver dæmir um það hvað sé rétt – eða fagurt?

öðrum megin skeifa – hinum megin glott
sjóna mín skiptist í tvennt – hausinn klofnar
partarnir tveir rífast – um hvað sé flott
ég finn hvernig líkaminn gefst upp og sofnar…

hvað er í gangi? – spyr mín meðvitaða sál
helmingar mínir rífast og slást
geðklofi? sjálfshatur? hvert er mitt mál?
hvenær mun ykkar niðurstaða fást?

er ég ljótur? er ég sætur? litarhaftið of ljóst?
mun ég deyja ungur? mun ég lifa of lengi?
er ég vöðvamikill fýr? eða með of stór brjóst?
beinn? skakkur? fíla ég stelpur? eða drengi?

á ég að hætta öllu námi? stunda skólann meira?
liggja latur heima? vinna líkt og djöfull – iðinn?
semja ljóð? byrja að mála? hvað um að leira?
drekka meira svo ég verði að lokum vel liðinn?

hlýða öllu? mótmæla hverju sem er – stjórnlaus?
kjósa til hægri? eða er til vinstri skárra?
vera villtur og svalur? eða blíður – kindarhaus?
halda mig niðri? eða flakka milli tindanna hárra?

ég gjörsamlega fullkomlega missi alla glóru
stari tómur á andlitsparta mína rífast
allar mínar heilafrumur – drápust eða fóru
hvaða sál mun í líkama þessum þrífast?

um herbergið glottandi ég frussandi skoppa
á andlitið tvær grímur bókstaflega renna
raulandi lagstúf – út um gluggann ég hoppa
slys – þetta var ekki sjálfum mér að kenna…

vakna upp í dúnmjúku rúmi – hvítir veggir
lyfjaskammtur, sprauta, biblía á borði
kynþokkafull kona, flottur rass, fagrir leggir
ég stari og kem ekki upp einu einasta orði…

hvar er ég staddur? er þetta himnaríki fræga?
rólyndisandrúmsloft – hvar í fjandanum er ég?
í kolli mér kviknar seint – ljósaperan hæga
nú brjálast ég – ennþá meir – djúpt andann dreg…

og öskra mig hásan – hlæ mig svo máttlausan
kerlingar og karlar hópast um mig hlessa
Kleppstarfsmenn allir telja mig vitlausan
hvað plagar eiginlega heimskingja þessa?

ég er ekki geðveikur – kemur ekki til mála
allir mínir vinir vita að svo er ekki
en brátt sé ég þar standa urmull vandamála
því þungir á svip eru þar allir sem ég þekki…



lífið hafði sinn vanagang og ég að lokum ég brast
hef tæmt allan yfirdrátt – í mínum gleðibönkum
svo allar mínar heilladísir spörkuðu í mig fast
og yfirgáfu mig hér í þungum heilaþönkum…



þessi sjálfskoðun hefur leitt að engu góðu
allar þessar hugsanir náðu á mér tökum
svo hér mun ég dvelja – í sál minni óðu
í hvítu herbergi – undir mjallhvítum lökum…

…sálin mín reyfuð og niður bundin…
…nú gisti ég kátur – í húsi við sundin…

-(geðveikur)pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.