í svartamyrkri kúrum við og hlustum á þögnina
hjúfrum okkur að hvoru öðru - brosin hlæja
undir þunnu laki í kulda
heit engu að síður
hjá þér …

í svartamyrkri kúri ég og hlusta á minningar
kipra mig saman og græt - tárin stynja
undir þykkri sæng í hita
kaldur engu að síður
án þín …

reyni að leita friðar í föngum fríðra fljóða
gæsahúð mín hverfur örstutta stund
undir björtum himni á eftir
einn á nýjan leik
hugsa um þig …

reiði mín gagnvart þér hefur dvalið í sálinni
en ást mín til þín hefur ávallt tekið við
því sama hvar þú ert í hjarta mínu
sama hversu oft ég rek þig út
þá ratar þú aftur þar inn …

hjartað sem ég þér áður gaf
ég get ekki tekið til baka
ást mín sem að áður svaf
hún mun nú að eilífu vaka
ást mín til þín …

sama hversu oft við deilum
sama hversu oft við sættumst
í áflogum okkar skynja ég ennþá ást
sættin tendra líðan er ég áður vildi gleyma
minningar um sælu sem að áður brást
svo ég reyni að sofna og ég læt mig dreyma
um þig …



en ég veit að við aldrei náum saman á ný
þó ást mín til þín sé sönn og hlý
þó elskir þú mig nú
og munt minn vinur verða
þá mun líðan þín ávallt aftur hverfa
ást þín til mín …


-(danni)pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.