Þegar þú fórst var það sárt, sársauki sem lamaði hjartað.
Ég er ekki fær lengur um að elska, ég er orðinn kaldur að innan og sá kuldi finnst allt í kringum mig. Fólk horfir á mig öðruvísi, segir að ég sé orðinn þunglyndur. Og það er rétt, ég hef ekkert lengur að lifa fyrir. Dagarnir líða áfram án þess að ég taki eftir þeim og þeir eru allir merkingarlausir án þín. Maður veit víst aldrei hvað maður á mikið fyrr en maður hefur misst það, ég tapaði þér og myndi gefa allt til að fá þig aftur og lífið sem ég lifði þá. Því ég sé núna hversu mikils virði þú ert mér.
Ég tók þér aldrei sem sjálfsögðum hlut því í mínum huga var ég heppnasti maður í heimi að fá að eyða tíma með jafn yndislegri manneskju og þér en svo er það tekið af mér og ég veit eiginlega ekki lengur hvað ég á að gera við sjálfan mig. Án þín eru dagarnir langir og litlausir og framtíðin óskrifað blað sem ég get ekki skrifað á. Það getur ekkert komið í staðinn fyrir þig og þó að það sé ekki nema ár sem þú ert í burtu gæti það allt eins verið mannsævi. Ég er það djúpt sokkinn að mér verður ekki bjargað og í staðinn fyrir þá gleði og lífshamingju sem ást okkar veitti mér er kominn nístandi söknuður og eftirsjá. Biturleiki hefur sett mark sitt á mig og ég fæli þá frá mér sem mér á að þykja vænst um. Ég vildi að ég gæti gleymt og haldið áfram en það er erfitt. Í hvert sinn sem ég dirfist að líta á aðra stelpu fer hugurinn til þín og það verður aldrei neitt úr neinu sem ég geri. Ég tel dagana þangað til að ég sé þig aftur og þegar sá dagur kemur að ég get faðmað þig aftur og haldið þér þétt að mér þá verð ég manneskja á ný en ekki þessi líflausi líkami sem ég er í dag…