(Gamalt, gamalt, gamalt…þarf samt að koma því frá mér.)
Ég veit af honum fyrir utan gluggann
Sársoltið ýlfrið verkjar í beinum
Eftir öll þessi ár situr hann ennþá um stúlkuna,
Sem einusinni var ég.
Ísköld og holdvot
Stóð hún í snjónum með blóðugar hendur
Of lítill náttkjóll, blákaldir fætur og stúlkan
Sem einusinni var ég.
Fram og aftur ráfar hann
Út um gluggann vill hún
Ég held henni fast í örmum mér, stúlkunni
Sem einusinni var ég.
Hún er svo köld, hjartað gapandi sár
Hún man myrkan feldinn og beittar klærnar
Þar gat hún falið sig og horfið, stúlkan
Sem einusinni var ég.