…tunglið skríður hægt yfir rauðbláa hvelfinguna yfir höfði mér
…himinninn lýsist nærri endunum en er sótsvartur í miðjunni
…líkt og ég sjálfur.
…fuglinn kroppar kornin af malbikinu og finnur vanlíðanina vaxa
…eiturefnin sogast inn í agnarsmá líffæri þessa saklausa dýrs
…hann flýgur og fellur og dettur loks vankaður niður á grasið
…líkt og ég sjálfur.
…bílarnir keyra framhjá mér og bílljósin glotta við tönn
…vindhviðan feykir mér til og frá á jaðarsvæði vegarins
…þeir reyna að hitta mig aftur og aftur og keyra mig loks niður
…líkt og þið öll.
…sólin sest niður bak við fjallið til að lýsa öðrum plánetum
…hún er horfin mínum augum og myrkrið stendur tómt eftir hjá mér
…og hún kemur vonandi á morgun til að lýsa upp tómið í kring
…líkt og þú.
…á morgun verður skýjað
…á morgun verður grámi
…á morgun verð ég tómur
…og á morgun sér hún mig ekki
…sólin sem hvílir bak við fjöllin
…í unaðsbeði stjarnanna
…líður betur hjá þeim því þau skína
…og þau eru lík hvert öðru
…hvernig getur þú séð mig sól
…þegar ég er aðeins myrkur depill á jarðarinnar fleti
…skín ei fyrir þig og þú finnur mig aldrei
…vertu heldur hjá þeim er skína
…vertu heldur hjá þeim er þú líkist
…hugsaðu ekki um myrka sálina mína
…sem dofnar upp í myrkrinu og sýkist
…upp til stjarnanna
…þar áttu heima
-Pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.