Á fjöllunum í fögru skini glerbrota geimsins
finn ég gleði vaxa í sálartetrinu auma
eltist við staði þar sem ekkert er…
Ég er utangarðsmaður og mistakabarn heimins
undir niðri finn ég eldgos og kvalalosta krauma
því ég vil bara refsa sjálfum mér…
Einsemd og óánægja
Dauði og vitleysa
Reiði og ófullnægja
Drasl og endaleysa
Þegar Jesús kemur niður aftur hef ég nokkrar kvartanir…
…
Geðveikin vex inni í þeim sem finna aldrei leiðina heim. Heimili er afstætt en hugsun um slíkt getur daprar vonir glætt. Er heimurinn heim? Er geimurinn heim því ég á vissulega heima þar? Gæti svo sannarlega látið mig dreyma um stað þar utan en heili minn nær ekki svo langt. Það er helvíti strangt að þurfa að binda hugsanir svona niður. Vissulega siður í gegnum tíðina að vera dálítið jarðbundinn en heimskasta hundinn getur líka látið sér detta í hug eitthvað betra. Við flækjumst milli vetra og snjóalaga með skóflur og verkfæri en það er önnur saga. Fæðum litla maga. Ein lítil Doritos flaga er víst á við matarskammt í Afríku en við verðum samt að fita þá ríku enn meir. Meðan flugufés í Rúanda bólgnar upp og deyr er aurafés í Sviss með keppi á við svín. Drekkum meira vín til að takast á við lífið. Tilveran er mín. Tilveran er þín. Tilveran er fín. Tilveran er lín sem brennur hægt í fataskáp sem við köllum hinn óendanlega geim. Ég bið stelpur að koma með mér heim. Koma með mér heim að ríða til að láta þennan endalausa, andskotans tíma líða.
Það er ekkert annað hægt að gera.
Það er ekkert annað við að vera.
Ein lítil gredda í skammdeginu dimma er löngu glötuð rimma við miklu stærra myrkur. Fólk verður sátt við einn góðan drátt en hann endist ekki svo lengi. Sérstaklega ekki þegar við tölum um drengi sem voru að missa dóminn. Varla komnir með djúpa róminn sem heillar svo margar konur. Eins og þeir er ég Drottins sonur og þori ekki að vera graður. Hræddur við hreinsunareld og predíkunarblaður frá veru sem er ekki maður eins og ég. Drottinn? Dottinn? Niður í víti? Fyrir örfá lýti sem ég skóp á hreinleika heimsins með örskammri fryggð? Er nágrannans dyggð nokkuð meiri en mín því guð, ég get heyrt gegnum veggi. Heyri þar leggi og hendur slást í bland við stunur og ást og dunur og fleira. Veit ekki hvar morðum er raðað í þínum orðum því ég veit að forðum voru þau ekkert mál. Eitt lítið FUCK er dauðasynd núna en hvað um þá mynd sem ég horfði á í gær? Tvær flottar konur sem nudduðu tær og elskuðust heitt. Voru ÞÆR svona slæmar? Veit ekki meira… get ekki meira… verð að láta mig hverfa ofan í pitt og fleira í líkingu við það. Taka eitt langt bað í drullu og skít því þar finn ég mér samastað.
SJÁ! Þar hef ég svarað minni spurningu. Þar á ég heima. Þar get ég látið mig dreyma um lausn að lokum. Laus undan vítisstrokum því þú hlýtur að fyrirgefa einhvern tíma. Eða heyrirðu í mér? Ertu með síma þarna uppi hjá þér? Halló? Búinn að tala alltof lengi við eitthvað sem hefur ekki svarað. Hversu lengi hefur þetta samtal eiginlega varað? Verð að fara að leggja tólið niður því sama hversu mikið maður biður virðist þögnin ein ansa. Verð að fara. Mamma er með ýsu í hamsa…
Bæ í bili.
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.