Ég breiði úr ósýnilegum vængjum
áður er ég stíg fram af
og hef mig til flugs.
Með óæfðum en kröftugum vængjaslætti
næ ég að hækka mig og svífa upp fyrir ljósastaurana
sem benda á mig í forundran
og reyna að fanga mig með birtu sinni.
En ég slepp undan
og tipla létt á tánum yfir lág skýin
sem mjakast eins og tignarleg skip yfir borgina
og sigla hvert á eftir öðru á Esjuna og sökkva í hlíðunum.
Ég stekk frá borði áður en skýið mitt brotnar í spón
og tek stefnuna á ljósdeplana
sem speglast í sléttu hafinu
fleyti kerlingar framhjá bátunum
og tek aðflug að miðjum skógi sofandi húsa sem rumska varla
við vængjaþytinn.
Ég sé fólk á stangli
rótfast og rótlaust, illgresi og rósir
allt saman í einum stórum garði
sem uppsker á hverjum degi.
Ég lít yfir þennan svo vel hirta garð
og sé falleg blóm sem mig langar að taka með heim
og vökva.
En ég verð að skoða mig meir um síðar
því nú líður á heimferð
og enda þessa draums.
Flýg ég hátt
á ósýnilegu vængjunum
og tek mér far á ný með einu af ólánssömu skýjunum
yfir garðinn, yfir sjóinn og heim
í herbergi þar sem ég ligg
og dreymi.
—–