litlar flugur flögra um loftið og flýja er ég hreyfi mig
fjallið bak við mig er svart að lit
líkt og himinninn í fjarska.
Grasið lyktar sem náttúrunnar ilmvatn
lækurinn liðast áfram með lágum stunum
sem halda fyrir mér vöku í nótt
meðan fuglarnir sofa í bjarginu.
Ég stari aðeins út undan mér og sé hvar maður kemur
mikilfenglegur líkami hans brenglast í hitanum frá eldinum
andlitið er stórskorið og hendurnar hrjúfar
jörðin nötrar undan skrefum hans sem berast til mín.
Skyndilega hverfur hann og ég stari upp í tjaldhimininn
draumurinn sækir að mér líkt og her að virki
ég sest upp og teygi úr mér
faðma stúlkuna við hlið mér.
Askan hefur fokið í burtu frá eldstónni
og grasið er vott undan dögginni
fjallið er grænt á ný
himinninn er blár að vanda
ferskt loftið lífgar upp á mig
ég stari út í græna náttúruna.
Og fótsporin eru þar enn.
-Pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.