Í björtu tunglskini
svífur yfir vötnum
mánadís,
endurkastar birtunni,
blindar hjörtu
sem láta tælast
af söng hennar.

Ljúfir tónar
liðast um loftið
og laufin bærast
af fögnuði.

Lýsandi af hamingju
tilbiður hún móður sína
sem í fullum blóma
breiðir ást sinni yfir heiminn.

En þegar gyðjan
leggst í hvílu sína
og rökkrið svífur á braut
fellur dulúð næturinnar
í skuggann af nýjum degi.
Óttinn við myrkrið hverfur
og hjörtun fá sýn á ný.

Huldan
svífur á þokuskýi
aftur til himna,
grætur söltum tárum
til mannanna.
Því enginn man
hver sefaði óttann
er myrkrið byrði þeim sýn
og flauelsmjúk dimman
lagðist yfir jörðina.

Hún var aðeins draumur.