Mig langar að birta hér ljóð úr ljóðbókinni „Þorpið“ eftir Jón úr Vör. Ég var mjög hrifinn af því sjálfur og vil gefa fleirum kost á að njóta þess. Ég vil þá líka hvetja lesendur til að lesa bókina.
Útmánuðir
Og mannstu hin löngu
mjólkurlausu miðsvetrardægur
útmánaðatrosið
bútung, sem afvatnast í skjólu.
brunnhús
og bununnar einfalda söng
báta í nausti
og breitt yfir striga,
kindur í fjöru
og kalda fætur
og kvöldin löng eins og eilífðin sjálf
oft var þá með óþreyju beðið
eftir gæfum
og nýju í soðið.
Og mannstu
eitt kvöld undir rökkur
þú stóðst í fjöru með fóstru þinni.
Þið horfðuð með ugg á frosna hlunna,
út á fjörðinn
til himins-
þið áttuð von á litlum báti fyrir eyrarodda,
en hann kom ekki
Og mannstu
gleði þína á miðri nóttu,
er þæú vaknaðir við, að á koll þinn
var lagður vinnuharður lófi
og um vanga þinn
strokið mjúku og hlýju handarbaki.
Fóstri þinn var kominn
-og kyssti þig, er þú lagðir hendur um háls hans.
Og það var enn kul í sjóvotu yfirskegginu.
Og næsta morgun var blár steinbítur
á héluðum hlavarpasteini
og sól sindraði í silfri ýsuhreisturs
og hamingja hins fátæka manns.