Heyrðu litla Huldubarn
hjartsláttinn í mömmu
syngja þetta litla lag
um lífstaugina römmu.
Gráttu ekki góða barn,
grimma myrkrið víkur
þegar mömmu hönd er hér
og heitan vanga strýkur.
Sofðu angurblíða barn
með barminn undir eyra,
vögguvísu hjarta míns
víst þá muntu heyra.
Heyrðu litla Huldubarn
hjartsláttinn í draumi
óma aðeins fyrir þig
í öllum lífsins straumi.
- til Nadíu & Huldu