Klukkan á veggnum
slær eitt, tvö, þrjú
hjartaslög
sem bergmála í herberginu
og í huga mér.
Loftið samlagast sjóndeildarhring
er markast af fjallsveggjum fjórum
sem umlykja.
Öldurnar bylgjast í gluggatjöldunum
og brotna hverjar á eftir annari
á veggjunum
sem skipta litum í flöktandi birtunni.
Birtan síðan dofnar og deyr
er ég slekk á sólinni og deginum.
Slær hjarta mitt eitt, tvö, þrjú
klukknaslög
sem bergmála í huga mér
og í herberginu.
—–