Ó, sykurreyr þú sem ert svo sætur, hví ert þú brotinn af stjórnmálamönnum morgundagsins. Þú sem varst svo beinn og tignarlegur; þú sigraðir alla heimsins storma og heilsaðir svo sólinni auðmjúklega. Af hverju finn ég þig hér í spænum á þurrum moldarakrinum sem hefur ekki fengið deigan dropa í ár og öld?
Hvernig dirfast þeir? Öfundsýki, valdabarátta og niðurrifsbrjálæði stjórnar gjörðum þeirra að þeim viðstöddum. Þeir aðhafast ekkert.
Ég tek þig af jörðinni og fer með þig heim. Ég nýti þig á þann hátt sem hefur gefið mannkyninu sælu og aukið nautn hans, þó ég viti að meira býr að baki þér. Ég sykra líkama minn með afurðum þínum og öðlast meiri styrk.
Á meðan sólin heilsar mánanum eins og dagurinn nóttinni, rigningin gleður gróðurinn eins og mistökin mannkynið, hundurinn hleypur á eftir kettinum eins og maðurinn konunni, þá mun ég virða þig eins og sonur föður.
Þú ert ekki lengur brotinn, vinur minn, nú ert þú auka stoð í mér. Við erum eitt. Saman getum við staðist tímans tönn.