sex strengja gítar
með þrjá strengi slitna
getur ekki spilað sitt fagra lag

tveggja strengja hjarta
með annan strenginn slitinn
vill bara rymja sitt daufa slag

og það hljómar ætíð eins



yfirborð sálar sést ekk’í myrkri
og sorgin bak skugganna leynist
í tóminu hljóðið hverfur á braut
og þögn ein í eyrunum reynist

í myrkri skjólin ég ætíð finn mér
í myrkri bólin mér þykja svo hlý
í myrkrinu næði
og myrkur er hér
myrkrið er athvarf
og vinur á ný



strengirnir fáir
í tóminu þegja
og hljóðir í svefninum langa

ókunnar raddir
í myrkrinu segja
að horfin sé angistin stranga

í tómi og myrkri
þögull og dökkur
tekst mér loks friðinn að fanga…





-Daníel Pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.