mótmæla engu né biðja um eitthvað meir
lífið er rútína og lögin farveg skapa
fyrir líkama sem hafa engu að tapa…
úr augum þeirra dauðinn brýst út sem sýrutár
sorgin hefur þurft að bíða í alltof mörg ár
útrásin heft af ímynduðum lagafjöllum
þau mega ekki gráta, frammi fyrir öllum…
karlmenn eru sterkari og skulu allt þola
í angist og verkjum þeir mega ekki vola
innri reiði, innri leiði og innra víti
eru nú föst í sjálfsköpuðu húðargrýti…
…
ekkert kemst út og engir komast inn
ég vil ekki fá þig í hugann minn
ekkert fær útrás og ekkert fer burt
ég get ekki grátið… en hef oft þurft
vín hefur verið minn vinur löngum
verið mér útrás í trylltum öngum
þó núna sé komið nóg af bjórnum
nærist ég best í samfélagsflórnum…
vil gleyma mér í sjálfsvorkunn og sút
sukka og vonast eftir leiðum út
ég hef lifað á alltof lágu plani
og áfengiseitrun mun verða mér bani…
…
í augum allra mannkynið dvelur í móðu
við munum aldrei eiga von á nokkru góðu
ég veit, ég sé, að öllum er sama um alla
er það nokkur missir, ef ég læt mig falla?
einn af milljörðum og mun aldrei líka það vel
mannfólkið krabbamein og deyðandi dómsdagsvél
nú enginn mun vita að ég var alltaf hryggur
því í ræsinu ég…
eða dauð brúða
liggur…
-Daníel Pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.