Fæðist á fimm sekúndum
inn í heim er dagar uppi
tekur fyrsta skrefið fávís
og fellur við fætur sætu stelpunnar
sem situr við hliðina á þér
í sex ára bekk.

Afsakar þig og bíður eftir svari
sem samræmist ekki væntingum
um sæmilegar einkunnir
úr samræmdu prófunum.
Drattast heim sorgmæddur
og stynur í takt við kærustuna heima
eftir busaballið, búinn á því
og byrjar aftur,
stafandi stamandi H eins í háskóla
sífellt hás og æpir á son þinn
sex mánaða
sem skítur á nýtt teppið
og vinnuskýrsluna.

Fáeinar línur finnast þó krumpaðar
í fatahenginu
við lok fimmtugsafmælisins
í kjafti nýfædds barnabarnsins,
og þú dæsir, dauðleiður á því
að rifja það upp
hvort þessi kona sé frænka þín
sem útdeilir fyrsta gamalmennatékkanum
sem gefur þér ekki rassgat eða bót fyrir

Og þú fyrirgefur vorar skuldir, skuldunautum
skítlegum börnum þínum
fyrir að nurla varla í fúna líkkistu
horfir niður á pakkið hlakkandi yfir því
að hlaupa með offorsi
yfir í næsta líf.
—–