Sko. Skal fara í gegnum þetta í rólegheitum eins og ég gerði stundum hérna einu sinni, þangað til allir voru farnir að hata mig :)
Þú verður að ákveða hvort þú ætlar að nota stóra stafi eða ekki. Ef þú ætlar hvorki að láta ljóðið sjálft, né titilinn hefjast á stórum staf, þá myndi ég sleppa stórum stöfum í sérnöfnum líka og segja þar með flugstöð leifs eiríkssonar.
Hegemónýja get ég lofað þér að er ekki til. Ef þú ert að þýða enska orðið hegemony, þá skal það a.m.k. skrifað með einföldu í og þar með engu j. Sum sé með hegemóníu á heilanum.
Enn nýleg carisma-n þykir mér vera afskaplega slæmt orðalag. Ef þú átt við að þú hafir nýverið áunnið þér persónutöfra, og vilt endilega nota enska orðið yfir þá, þá myndi ég hafa þá í hvorugkyni, skrifa þá með k en ekki c og sleppa bandstrikinu. Enn nýleg er líka mjög enskt orðalag. Betra væri að segja bara nýleg (eða nýlegt, þar sem við erum jú komin út í hvorugkyn).
Varðandi orðið leifar, þá vantar eiginlega eitthvað með því, ég veit a.m.k. ekkert um hvaða leifar er að ræða.
Ekki segja ákvörðun um að kalla mig skáld, heldur bara þá ákvörðun mína að kalla mig skáld.
Kúplingin er ónýt en ekki ónýtt, geri ég a.m.k. ráð fyrir, svolítið furðulegt að keyra um á bíl með ónýtta kúplingu.
Á þessum stað í ljóðinu skiptirðu allt í einu úr þátíð yfir í nútíð, ég myndi geyma það þangað til í næstu línu á eftir.
Í næstsíðustu línunni á breyttir að vera breytir og ég myndi persónulega sleppa tvípunktinum og setja að fyrir framan síðustu línuna.
Að lokum þarftu að endurskoða línuskiptingar. Ef þú setur línubil, áttu annað hvort að hafa það tvöfalt eða draga inn fyrstu línuna á eftir því. Textinn á semsagt annað hvort að líta svona út:
í flugstöð Leifs Eiríkssonar klukkan hálfsjö í morgun kyssti ég þig bless, kannski í síðasta sinn, með hegemónýju á heilanum og mögulegt manndrápsvopn (sexhundruðogfimmtíu blaðsína doðrant) í hendinni, bara til þess að ég geti hugsanlega einhvern tímann kallað mig bókmenntafræðing
[indent] úti biðu fartölvan og enn nýleg carisma-n, leifar og stöðug áminning um þátttöku mína og afturkall úr lífsgæðakapphlaupinu og þá ákvörðun mína um að kalla mig skáld
eða svona:
í flugstöð Leifs Eiríkssonar klukkan hálfsjö í morgun kyssti ég þig bless, kannski í síðasta sinn, með hegemónýju á heilanum og mögulegt manndrápsvopn (sexhundruðogfimmtíu blaðsína doðrant) í hendinni, bara til þess að ég geti hugsanlega einhvern tímann kallað mig bókmenntafræðing
úti biðu fartölvan og enn nýleg carisma-n, leifar og stöðug áminning um þátttöku mína og afturkall úr lífsgæðakapphlaupinu og þá ákvörðun mína um að kalla mig skáld
En mér finnst reyndar alls ekki fara vel á því að skrifa prósaljóð sem er með greinarskilum ef það er svona stutt og ekki með greinarmerkjum. Þ.e.a.s. ég myndi sleppa öllum greinarskilunum í þessum texta og bæta inn greinarmerkjum ef þér finnst þú þurfa að búa til hik, áherslur eða eitthvað slíkt. Prófaðu þetta og ég skal svo kíkja á það aftur.
Kv. Hildur.