haustið heilsar aftur öllum sálum
hryggbrotin við sjáum laufin fjúka
grundin gullin bíður eftir bálum
gisið vill það brott frá jörðu strjúka…

eitthvað dó í mér en ennþá dvelur
drunginn hefur krafti mínum stolið
gleðin hverful hvarf í sínar felur
kvalinn finn ég minnka aftur þolið…

hjartað veit hve hjálplaus ég get orðið
hljómur vinda eykst með hverri stundu
hlýjan dvaldi stutt og hefur horfið
hamingjan er flogin upp frá grundu…

napur gnæðir vindur vont um kinnar
veikbyggt hefur sinnið lengi kvartað
sorgartárin streyma lengra innar
setjast þung á sorgum vafið hjartað…

- Viðlag
grátandi mun ég vængjunum blaka
er ég horfi til himna
og einnig til baka…



himinn glitrar gullinn undan geislum
gellur freisting hátt í mínum heila
hvað ef ég nú tæki þátt í veislum
þar sem englar gleði sinni deila?

þessi hugsun dapran hugann sefar
holdvot augun lokast er ég sofna
fyrr en sál mín færist eitthvað neðar
finna vil ég andardráttinn rofna…

hinsti draumur kemur fullur drunga
dauðinn heilsar þar með þunnum vörum
hægjast loksins dunur hjartans unga
horfi ég á líf mitt nú á förum…

- Viðlag
snöktandi mun ég vængjunum blaka
er ég horfi til himna
og kannski til baka…



fætur takast upp frá grýttri foldu
finn ég frið er kemur aftur hlýja
sjúkdómurinn sefur djúpt í moldu
sálin svífur kát á milli skýja…

von um frið í fögrum skýjalöndum
ýtir fast á eftir vængjum léttum
englar taka mót mér hlýjum höndum
heimili á himnaríkissléttum…

- Viðlag
brosandi mun ég vængjunum blaka
er ég horfi til himna
en aldrei til baka…



Danni Pardus
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.