Dama
Pelsklædd gyðjan gengur eftir stræti
glæsileg, í rauðum hælaskóm.
Karlmenn hugsa allir: Ef ég gæti
eignast þetta eyðimerkurblóm.
Henni er svo hjartanlega sama
um hungursneyðir, róna og glæpamenn.
Hún veit að það er dýrt að vera dama
og daðrar stíft við mikilvæga menn.
Hún lætur eins og lítil siðprúð kisa
og lítur saklaus augu þeirra í,
bræðir hjörtu ríkra kvótarisa
rænir þá og stingur af í frí.
Þeir trúa engu, brjótast um og stama:
“Þessi umskiptingur virtist vera dama…”