Þú hefur rétt fyrir þér. Ég sneri þessu eitthvað vitlaust, var að flýta mér. Orðasambandið er að draga net á e-ð.
Ég held, að hver sem leggur sig fram um að nota tungumálið til að túlka hugmyndir, tilfinningar eða slíkt þurfi að leita nýrra leiða í sífellu. Annars er hætt við að viðkomandi staðni í ákveðnum málheimi, innan ákveðins ramma og fullnýti þá möguleika sem þar eru. En einmitt með því að kynna sér málið, þekkja alla króka þess og kima, er hægt að komast hjá þessu. Það er nefnilega óþarfi að vera sífellt að finna upp hjólið. Finna nýja notkunarmöguleika á tungumálinu, finna upp ný orð og orðasambönd. Það væri hundleiðinlegt að lesa ljóð ef öll væru skrifuð innan 3000 orðaramma.
Þetta er ekki spurning um fasisma. Heldur um að gera kröfur um að höfundar, sér í lagi maður sjálfur, nýti sér tungumálið til hins ýtrasta. Hvers vegna að sætta sig við orðið ganga þegar til eru einar 8-9 sagnir sem eru sértækari og gefa betri mynd? Í þessu felst, jú, sú krafa um að skáld vinni efni sitt af fagmennsku og umfram allt, virðingu. Virðingu fyrir efninu, virðingu fyrir forminu og virðingu fyrir tungunni.
Þetta er mjög lýsandi fyrir muninn á mér og þér. Þú skrifar af allt öðrum ástæðum en ég, ég skrifa miklu frekar mér (og kannski öðrum) til gamans heldur en gagns. Þar með er ekki sagt að ég hafi ekki þörf fyrir að skrifa, hana hef ég. En ég skrifa ekki af jafnmiklum ákafa og þú, fyrir mér er þetta áhugamál frekar en hugsanlega framtíðaratvinnugrein. Þetta kemur einnig fram í því að þú hefur miklu meiri trú á sjálfum þér og miklu meiri áhuga á að verða sífellt betri.
Þú lítur á sjálfan þig bæði sem rithöfund og skáld, ég lít á mig sem áhugamanneskju. Þess vegna finn ég ekki hjá mér sérstaka þörf fyrir að sökkva mér ofan í sifjafræði og skapa nýjar leiðir til að beita tungunni. Ég er meira í því að raða mínum 3000, eða kannski 300, orðum í mismunandi röð, vonandi vekja hughrif hér og þar í leiðinni og vera þakklát fólki eins og þér fyrir að nenna að standa í hinu.
Samt sem áður er virðing mín fyrir málinu takmarkalaus og ég geri skýlausa kröfu til sjálfrar mín um að fara rétt og vel með það.
0