(Aldrei þessu vant er afkvæmið í lengri kantinum…)

Hreingerningapúkinn



Ég gerði hreint í dag
rótaði í stöðnum skúffum
þyrlaði upp ryki í dyrum og dyngjum

Ég flokkaði allskonar smáhluti:

óteljandi tvinnakefli
gleymt skart
penna
smáaura
gömul bréf (nokkur tár þar)
myndir (sumar af fólki sem ég er löngu búin að gleyma)
dularfulla lykla (sem enginn veit að hverju ganga)

Ég fleygði út í tunnu
af köldu miskunarleysi:

vanræktum flíkum
hörnuðum naglalökkum
stökum sokkum
snyrtivörum (síðan Kurt Cobain var enn með púls)
tilgangslausum skrautmunum
gluggapósti óopnuðum frá því í fyrra

Ekki grunaði mig hvað ég átti mikið af:

skærum
hálsmenum
(nærklæðnaði sem ekki á erindi nálægt nokkrum kvenmanni)
gömlum jólakortum

Allt annað sem ekki fann sinn réttmæta stað
fyrir klukkan fimmtán núll núll
fór á haugana í fjórum stórum ruslapokum

Um klukkan sautján núll núll
fékk ég svima og ógleði
“Þrifnaðarmanía!” hugsaði ég

Svo ég settist niður með brauðsneið og kaffi
og velti fyrir mér hvað það væri nú ljúft
ef ég gæti gert það sama við:

ógagnlegar minningar
vonda drauma
brostnar vonir
neyðarlega komplexa
og fólk sem ekkert er á að græða…

Sagði pass, nóló og tuttugu spaða
hjálp, amen og jedúddamía
- fór svo og lagði mig.