Horn feðra minna glymja
við sjóndeildarhring.
Úr austri jafnt sem vestri
er kallað á mig
því bræður mínir berjast
þar hver við sjálfan sig
og þó þeir tóri ennþá
hafa börn mín fallið
fyrir feilhöggum axa þeirra
og því berst kallið til mín.
Viðkvæm sár minnar saklausu sálar hafa enn ekki gróið
svo særður ég bý mig til stríðs.
Gyrtur sverðinu sem ég forðum
mótaði úr mýrarrauða
og sveipaður skikkjunni sem ég óf úr ull
skoða ég mitt eigið vopnaval.
Spjót mitt er spakmæli
spunnið úr munni mínum.
Hjálmurinn, heimska mín,
hamingjan og hjátrúin.
Skjöldur minn er skrautleg
skemmtun æsku minnar.
Á bakinu ber ég beittar örvar orða minna
og bogann sem til Baldurs mistilteininn bar.