OK….
Þú ert með ágæta pælingu hérna í gangi, skemmtilegt að sjá hvernig þú vinnur með útjaskað tákn og reynir að bregða á það nýju ljósi. Það eru nokkur atriði sem ég ætla að benda þér á, atriði sem mér finnst mega betur fara.
Þú ofnotar ákveðinn greini. Slepptu honum og ljóðið verður miklu sterkara og vísar þar að auki út fyrir tíma og mörk. Meðan þú ert að nota ákveðinn greini ertu að vísa til ákveðinna hluta, ekki almennt. Ljóð sem hafa þennan almenna faktor (afsakaðu slettuna) eiga lengri lífdaga en þau sem eru mjög niðurnjörvuð í merkingu sinni.
Sjáðu:
Undir áhrifum hafsins.
Öldugljáfur, fuglakvak,
í bland við drunur skips,
lýsa angurværð minni.
Ljós borgar
lýsa upp dimmt síðkvöld,
engir kyndlar
birta mína dimmu sál.
Tónlist hafsins;
dimm, þung, magnþrungin,
mun fylgja mér alla ævi .
Toga mig upp úr erfiðleikum
og einmanaleik.
Því hún minnir mig á
að hafið er alltaf eitt,
alla sína eilífð.
Sama hversu mörg skip
á því sigla,
sama hversu mörg
lík í því liggja.
En ég,
ég hverf einn dag
á vit veraldar
og skil hafið eftir
í einmanaleik sínum.
—
Þú notar fleiri skynsvið en augu, mjög gott. Hefðir jafnvel mátt gera meira af því. Hins vegar finnst mér 3. erindi allt vera sagt en ekkert sýnt og draga ljóðið niður. Umorða takk fyrir!
Þú fellur í þá gryfju að reyna nota skáldlegt mál en það ferst þér illa. Notaðu mál sem þér er tamt.
engir kyndlar
birta mína dimmu sál.
Kyndlar birta ekki…upp, heldur birtan eða ljósið sem af þeim skín. Væri ekki betra að nota:
engir kyndlar
loga í minni dimmu sál.
Bara pæling.
Það kemur fyrir ég komi auga á stuðla. Þetta er mjög ríkt í okkar daglega tali, en í ljóðum þarf allt að vera meðvitað. Ljós borgar lýsa…þetta er stuðlasetning og kallar á eitthvað meira, sem hvergi er að finna. Þetta kallast stílbrot og er stundum notað til að leggja aukna áherslu á eitthvað, en oftast nær í lok ljóða. Ég fæ ekki séð tilgang þess að leggja aukna áherslu á þetta erindi, þannig ég lít á þetta sem galla. Þar að auki…ljós lýsa…well, duh!
Ég hvet þig til að vinna áfram með þetta ljóð og reyna orða það örlítið betur. Þetta er skemmtileg pæling, en vantar betri úrvinnslu.