Ég er víst ekkert alltof mikill ljóðahöfundur, en þetta er svona “Spoken Word” sem mér fannst kannski eiga við hérna. Fyrstu skrif mín á ljóðaáhugamálið. Þið fáið svo bara að gagnrýna þetta í klessu. Ætla ekkert að útskýra þetta frekar.
Út úr dyrum
Ég hika við dyrnar því ég það er eitthvað að
Fumla um í vösum og finn að lyklarnir eru ekki á sínum stað
Hleyp inn því ég veit að þeir eru þarna
En eru líkt nál í heystakki, líkt og fyrirskýjuð pólstjarna
Þótt hún glampi lang mest, finn ég hana samt ekki
Augun festast í hlekki og ég finn lyklana samt ekki
Strekki mig bakvið rúm, undir sófa sé ekki hvað er að, líkt og blekking
Ergi mig út af ríkjandi vanþekkingu, en ég finn lyklana samt ekki.
Hvar eru þeir
og hvað er klukkan,
af hverju breytist plús í mínus?
Rosalega er kalt og hver kom sökinni á Roger kanínu?
Ef E er sama sem MC í öðru sem samansafn af jöfnum hverjum er þá ekki sama?
Hugsanir stama því svo mikið gerist að líkaminn lamast
Fer í dvala, í einvígi við hugsanir mínar mér til gamans
Og leita bakvið tjöldin þó ég sé vel svarið gefið fyrir framan
Blekki sjálfan mig með vímu eigin þreytu í skugga eilífðarinnar á botni alheimsins
Bundinn í spennitreyju eigin hrokafylli á milli sleggjunar og steinsins
Englar leiðbeinandi mér en ég skil ekkert því þeir eru sífellt á sveimi,
Er ég reyni ómögulega að sanna tilvist tímans þó hann virki eins og reglugerðarmaður í leyni
Og af hverju er alltaf kominn tími til þegar tíminn fer aldrei frá?
Erum við ekki öll misstilltar klukkur sem ákveðum uppskeruna og sá?
Óháð þessu veit ég samt eitt, að allt tekur tíma en tíminn ekki neitt
Þar sem ég sit týndur í djúpum hugarheima þar sem allt er breytt
Ef að réttan á röngunni er röngu megin við röngu réttuna hvar er þá rétta rangan?
Mig langar að vera frjáls en fangelsið er ég og tók sál mína sem fanga
Berst við blindu þótt hún hjálpi mér að rata í myrkri
Sker gegnum sífellt þykkri veggi sem bæta innri styrk,
og tekst loks
að rata í
leit mína að lyklunum
Ég er að verða of seinn, það gleymdist í hasarnum
Í stað íhuganna kemur léttir, lyklarnir voru í rassvasanum.