Halló Pardus. Þú ert kannski hörundsárari en ég bjóst við. Fyrirgefðu hvað ég gekk nærri þér, það var ekki ætlunin. Ég veit ekki hvað þú áttir við með þessu: „Ég verð stundum asskoti pirraður þegar ég sé krítíkina þína án þess að fá nokkurn tíma útskýringu á því af hverju ljóðið sé slæmt“. Ég hef ekki lagt í vana minn að leggja fram órökstudda gagnrýni á ljóðin þín, eins og þú getur sjálfur séð á samantektinni hér að neðan.
1. Varðandi Greenpeace, þá er mér nákvæmlega sama um þínar persónulegu pólitísku skoðanir, ég kann að vera ósammála þeim en ég ver rétt þinn til að hafa þær.
2. Mér er nákvæmlega sama hvernig aðrir kjósa að gagnrýna ljóðin þín, mér er nákvæmlega sama hvort öðrum gestum huga þykja þau góð eður ei, ég byggi mína gagnrýni á mínum smekk og minni þekkingu, ekki annarra.
3. Þú vilt meina að þú fáir ósanngjarna meðferð hjá mér. Ég tók saman öll komment frá mér til þín frá því einhverntímann í september, ég mæli með því að þú lítir yfir þau og færir svo frekari rök fyrir máli þínu.
4. Þú sagðir: „Þú kallaðir mig stigahóru“. Þú ert væntanlega að vísa til þess þegar ég sagði: „Ég veit svosem ekki hvað það er sem knýr þig áfram en stundum grunar mig að það sé frekar stigahóruskapur en tjáningarþörf“. Þetta var ekki ég að kalla þig stigahóru, það er vonandi alveg ljóst ef þú lest þetta aftur. Ég var að benda á að mér fyndist ljóðin þín stundum bera keim af fjöldaframleiðslu. (Hinsvegar finnst mér þessi athugasemd þín: „Ég hef 2807 stig á síðunni, 987 stigum meira en næsti og þarf ekki að semja endalaust til að “halda mér í 1. sæti”!“ óneitanlega benda til þess að þessi fáránlegu stig skipti þig einkennilega miklu máli.) En nóg um það.
5. Að sjálfsögðu veit ég ekkert um geðheilsu þína og kemur hún í sjálfu sér ekkert við. Ég viðurkenni fúslega að ég er langt frá því að vera hæf til að sjúkdómsgreina fólk almennt, hvort sem ég þekki það eða ekki. Þessar athugasemdir mínar snerust ekki um persónuleikann þinn heldur tilfinninguna sem ég fæ þegar ég les ljóðin þín. Ef þú þjáist í raun og veru af þunglyndi, þá verð ég að segja að mér finnst þú ekki ná að fanga viðkvæmni viðfangsefnisins þegar þú skrifar um þitt eigið þunglyndi. En það er jú bara mín skoðun. Hitt er annað mál að ég sé smá þversögn í því að vera sannfærður um eigið þunglyndi, og m.a.s. „gert ýmislegt til að reyna að koma mér upp úr því en hingað til hefur ekkert virkað“ en að vilja ekki þiggja lyf við veikindunum sínum. En þú um það, eins og ég segi þá kemur mér geðheilsan þín ekki við.
6. Þínar skoðanir á mínum ljóðum ættu kannski betur heima í svörum við mínum ljóðum, eða bara þar sem ég hef beðið þig að færa rök fyrir athugasemdum þínum. En þakka þér allavega hreinskilnina, það er aldrei að vita nema ég íhugi að fara að yrkja epísk ljóð með inngangi, risi og lokaorðum til að höfða til þín. Og þó, kannski ekki. Ég stóð í þeirri meiningu að fólk sendi skáldskapinn sinn hingað inn vegna þess að það vildi vita hvað öðrum fyndist, þess vegna gagnrýni ég ljóð þegar mér finnst vera ástæða til, hvort sem ég hef eitthvað gott eða slæmt að segja. Ef þú vilt ekki gera það, þá er það þitt mál. Gleymdu því samt ekki að þú spurðir mig hvað það væri sem ylli því að þú hefðir fengið neikvæða gagnrýni undanfarið, ég einfaldlega svaraði þér. Enda stóð ég í þeirri meiningu að þú vildir heyra svarið… en það er kannski bara minn einfaldleiki.
Það er engin hætta á því að ég fari að gagnrýna leturgerð eða stafastærð á huga, af augljósum ástæðum. Mér fannst þessir endalausu punktar og upphrópunarmerki skemma fyrir mér lesturinn á ljóðinu þínu, það truflaði mig. Ég gaf þér jákvæða gagnrýni á ljóðið í heild sinni en benti þér svo á það í innihaldinu sem mér fannst mega betur fara. Mun halda mínu striki í þeim efnum. Svo held ég að þú eigir að leggja í vana þinn að treysta öðrum til að vita hvað þeim finnst um ljóðin þín. Það er ekki svoleiðis að ég hafi rangt fyrir mér einfaldlega vegna þess að þér finnst þú vera stórskáld. Afsakaðu háðið, ég er bara orðin pínkuponsu pirruð.
P.S. Ég kallaði þig ekki hræsnara, það voru þín orð. Mér finnst það alls ekki vera hræsni að yrkja um hluti sem maður þekkir ekki frá eigin hendi, sjáðu til dæmis nauðgunarljóðið þitt, ég vona að þú sért hvorki í sporum geranda né fórnarlambs í því tilfelli, en það gerir skáldskapinn alls ekki að hræsni. Ég var bara að reyna að benda þér á hvar mér fyndist þú eiga heima og hvar ekki, ég er ekkert hrifin af þunglyndisljóðunum þínum, þau sannfæra mig ekki.