Takk fyrir góða krítík, það er mjög gott og gaman að fá svona vandaða umsögn um það sem maður sendir hér inn -:)
Tek undir það sem þú segir að mjög erfitt er að þýða ljóð, það er alltof margslungið fyrirbæri til þess að hægt sé að skila öllum hliðum þess yfir á annað tungumál, búinn að reyna það of oft til þess að vita að það er ómögulegt. Þýðandi verður að velja hverju hann vill koma til skila. Hann verður líka að varast að talsmáti sem er eðlilegur í einu tungumáli er það ekki endilega í öðru, og reyna að tjá inntak ljóðsins á náttúrulegan hátt.
Í þessu ljóði legg ég áherslu á að skila ákveðinni mynd sem ég sé fyrir mér. Ég vel að líta á orðið “passes” sem þungamiðju 1. og 3. ljóðlínu, sé og reyni að endurspegla mynd af flæði fyrirbæris, án virkrar gjörðar eins eða neins, óttinn er fyrirbæri eins og gárur á vatni og mennirnir eru eins og vatnið, óvirkur miðill sem fyrirbærið streymir um. Þessi blæbrigði eru undirstrikuð með orðinu “unknowing” í 2.línu. Líkingin við laufin og skjálfta þeirra endurspeglar það sama, skjálfti laufblaðsins er ástand, sem ekki á neina meðvitund eða vilja, og berst af einu til annars, ekki fyrir viljaverk laufsins, heldur sem flæði. Lýsingin “like a leave passes it’s shudder” getur alveg átt við það að mínu mati og sá skilningur fellur betur að heildarmyndinni.
Ákveðni greinirinn, “óttinn” í stað “ótti” er auðvitað álitamál, en mér finnst ég persónugera fyrirbærið betur þannig, sem mér finnst vel geta átt við efnislegan skilning enska ljóðsins, því í ensku er gjarnan talað um fyrirbæri á eilítið persónugerðan hátt, í óákveðnum greini, t.d. fear eða terror. Að setja greini á slík orð hefur í för með sér annan merkingarblæ en á íslensku.
Í seinni hlutanum var ég mjög tvístígandi. Ég var búinn að velta fyrir mér einmitt þessum útfærslum sem þú ert með, en notaði þær ekki. Hugsa samt að næstsíðasta línan sé betri eins og þú ert með hana, en mér fannst síðasta línan of stutt svona. Samt ekkert alltof ánægður með mína útfærslu, því ég er sammála þinni krítík, var bara ekki kominn með betri lausn. Ég er jú enginn Helgi Hálfdánarson, bara fiktari.
Já, orðið Pass hefur þar að auki aðra merkingu í ensku, sem yfirfærist mjög illa í íslensku.
Pass the ball. Þarna er þetta í mjög ákveðinni merkingu, mjög meðvituð gjörð. Hins vegar tekur höfundur fram að þetta er ómeðvitað. Merking orðsins í þessu ljóði er því gjörð sem er ómeðvituð. Ekki eitthvað sem gerist ósjálfrátt. Ég velti lengi fyrir mér hvort að sögnin /að bera/ nái utan um það, en hef því miður ekki neinar betri lausnir.
Orð sem standa með greini í íslensku eru ákveðinn og vísa á eitthvað ákveðið. Orð án greinis eru víðari og taka fyrir heildarmynd. Mér finnst og það er minn skilningur á ljóðinu að hann sé að vísa í heildarmyndina, ekki bara á einhvern ákveðinn ótta, þó svo að ljóðið eigi vel við í dag. En einmitt með því að sleppa ákveðnum greini þá opnar hann ljóðið með þeim hætti að það getur staðið jafnvel fyrir sínu sama hvaða tími er, hvort sem það er 1940 eða 2140, vegna þess að ekki er vísað í ótta við hryðjuverk, stríð eða slíkt, heldur er lesanda látið í té það hlutverk að ráða í það. Þetta er einmitt það sem mér finnst gera þetta ljóð að góðu ljóði. Einhvers konar tímaleysa.
0