Eyðieyjan mín
Á eyðieyjunni minni óx áður aldinskógur
en nú er hér eftir lítið eplatré
því ég reif hin upp með rótum,
nartaði í ávexti þeirra
og henti afganginum út í sjó.
Þegar trén voru hæst
bjuggu páfuglar í greinum þeirra.
Ég náði þeim í net
og reytti fjaðrir þeirra
til að skreyta sjálfan mig
en ég brenndi bein þeirra.
Hér voru áður ástkonur mínar
þær komu en ég vissi ekki hvaðan.
Um litla stund naut ég hlýju þeirra
og þær hlýju minnar.
Þegar þær fóru grét ég.
þó sendi ég þær burt.
Allar þóttust þær koma aftur
og alltaf trúði ég þeim.
Nú sit ég einn á eyjunni minni
með eplatréð mitt og bíð.