Skrýtið
Út um eldhúsgluggann horfi ég á bílana á miklubrautinni, um daginn sá ég bíl með tvo gula bónuspoka á þakinu, gott að ekki rigndi þann daginn. Sat í gær á kaffibarnum yfir bolla af kaffi latti, bragðbættu með heslihnetum, finnst það gott, sólin skein á grasið á austurvelli, þar reikaði kófdrukkin gæs völt í spori, datt á stélið af og til, hvíldi sig, reyndi svo aftur. Hlýtur að hafa fengið dísu hjá rónunum, hugsaði ég, en túristarnir eltu hana í halarófu með myndavél á lofti þegar hún gekk fram og til baka á pósthústrætinu. Á næsta borði sat maður og gaf frá sér vellandi índíánaöskur um leið og hann veifaði hendinni fram og til baka fyrir andlitinu, þarf að verjast orkusugum, sagði hann við vini sína. Seinna komu maður og kona, ekki saman, heldur í sitthvoru lagi, hlustaði óvart á hann útskýra hvernig hann hefði ekki sagt neitt við konuna sína þó hún hefði greinilega verið að bíða eftir útskýringu, hann hefði bara verið kúl og fengið sér kaffi. Þú ert viðhald sagði ég í huganum og horfði á hana, soldið sæt, hún fór aðeins á undan.