birtan frá sólinni varpast af sænum
í fjarskanum sé ég tindra á tanga
tíbráin sýnir mér myndir frá bænum…
finn hitann frá geislunum hlýja kinnum
friðsæl mín ásjóna speglast á fleti
á hafi við hamingju aftur finnum
í höndum mér fiskar frá köldu neti…
undir stjörnunum skipið friðsælt skundar
á skýjum tunglið við þögnina dansar
á morgun við förum til fisksins fundar
finnum út hvort að hann netinu ansar…
…
vakna frá draumum í vetrarins drunga
dugur minn liggur víst bara í jöfnum
hugsa um námsefnið fullur af þunga
en sálina dreymir ferðir að höfnum…
skýrslan í skólanum eftir mér bíður
ég skila þarf strax fyrir næstu viku
meðan lífsins draumur framhjá mér líður
mælist ég efstur á einhverri stiku…
…
liggur minn hugur hjá framandi höfnum
eða heimsins speki og flóknum jöfnum?
liggur minn hugur hjá hafinu svölu
eða þeim tilgang’að ná hárri tölu?
einhverri tölu sem segir bara eitt:
“ég eyddi mínu lífi í ekki neitt…”
…
þegar stend ég doktor í fagnaðarglaum
og í höndum mér ber ég bókavinning
ég vakna mun leiður upp við vondan draum:
“að einkunn á blaði er ekki minning…”
…
ég hef sál sem á heima í skipum
en er laminn af lærdómssvipum…
-Danni-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.