þegar stjörnurnar lýsa mér leiðina heim
sé ég andlit þitt speglast svo fagurt í þeim
þegar stjörnurnar lýsa upp andlitið mitt
finn ég hjarta mitt þrá það að sjá aftur þitt…

þó röddin þín rétt áðan nærði mín eyru
vill hugur minn endalaust taka við meiru
þegar hugur minn endalaust hugsar um þig
finn ég söknuðinn þá sárast umlykja mig…

þegar norðurljós lýsa upp svefnpoka minn
og tunglið fullt reikar um kaldan himininn
fellur tómleikahrollur á hjartað í mér
því vildi ég óska þess að þú værir hér…

ef mælist einhver meðvitund inni í mér
vil ég óska þess alltaf að hafa þig hér…



þegar reika ég kaldur upp ókunnug fjöll
og tunglið bjart lýsir upp silfraða mjöll
stjörnurnar birtast og hverfa fyrir skýjum
er minning um þig það sem heldur mér hlýjum…

þegar sólin er hulin grámöskvaskýjum
er minning um þig það sem heldur mér hlýjum…


-Danni-


***Er alls ekki ástfanginn þessa dagana og einkennist eiginlega af furðulegu tilfinningaleysi. Þar sem febrúar er núna (leiðinlegasti mánuður ársins og sá lengsti – þrátt fyrir að vera sá stysti) er alltaf gaman að semja ástarljóð, þó ekki væri nema til að ímynda sér það að vera aftur orðinn ástfanginn (leið til að lýsa upp skammdegið.) Þetta ljóð er því ekki samið með einhverja stelpu í huga. Nýtti mér nokkur gömul ljóð til að semja þetta og vona að þið erfið það ekki við mig. Er búinn að vera frekar andlaus upp á síðkastið.***
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.