Þú nálgast mig, hægt og rólega
umlykur líkama minn fínofnu silki.
Þú strýkur mér og kjassar.
Hjartað volgnar og bros færist á varir mínar,
hugurinn gælir við draumórana
og líkaminn virðist svífa á léttu skýi
yfir áhyggjum mínum.
En svo finn ég hvernig silkið raknar upp
og víman sogast í óendanlegt hyldýpi.
Örvæntingafull reyni ég að grípa í vímuna
áður en hún hverfur mér sjónum.
Við það vakna ég.
Verkjar í allan líkamann
er ég stend upp og lít út um gluggann.
Við mér blasir kaldur grámóskuleikinn,
kaldari en mig minnti
þannig að ég set á mig trefil
og geng út í lífið.