Stundum hugsa ég um það sem þú sagðir þarna um kvöldið. Að þú værir hræddur um að finna kannski aldrei neina eins og mig. Ég finn þennan sama ótta lauma sér inn í brjóst mitt annað veifið. Því við vorum jú að svo mörgu leyti svo góð saman. Svo ótrúlega góð. En svo vorum við líka vond við hvort annað, særðum og meiddum. Svo ég held við vitum bæði að þetta var fyrir bestu, það kom í raun ekkert annað til greina en að fara sitt í hvora áttina. Enda sjáum við það skýrt og greinilega að við erum bæði svo miklu ánægðari svona.
En stundum, stundum bankar söknuðurinn á hjartað og býður sjálfum sér inn. Býður jafnvel með sér ýmsum kunningjum sínum sem ég vil helst ekki sjá í mínu hjarta, en kann þó varla við að henda út því móðir mín ól mig upp til að vera kurteis og gestrisin. Svo sitja þeir að sumbli í kringum sálina mína þeir kumpánar, Söknuður, Ótti, Einmanaleiki og Efi. Oftar en ekki slást þær í för með þeim dáindismeyjarnar Depurð, Biturð, Sorg og Sút og föruneytið slær upp balli í iðrum mínum. Þar dansa þau dátt fram eftir nóttu, eða allt þar til maginn í mér hleypur í hnút og vindur upp á sig svo tárin streyma úr augunum. Þá glotta þau í kampinn, en láta sig þó hafa það að skreiðast út. Aldrei þó án þess að skella á eftir sér hjartalokunum svo hjartað slái aukaslag og ég haldi að kannski slái það svo undarlega af gleði yfir brottför þeirra og ég sé endanlega laus við þau úr lífi mínu. Enn hefur sú von ekki ræst, en þó held ég í hana eins og hið víðfræga hálmstrá því ég veit að ég breytti rétt, veit að þetta varð að gerast og við erum betur sett fyrir vikið. Fyrr eða síðar hljóta þau að gefast upp á að ásækja mig og finna sér annað fórnarlamb.