var rétt búinn að jafna mig
á tveimur djúpum skotsárum
er ég sá hann koma
askvaðandi yfir sjóndeildarhringinn…

andlit hans
makað í stríðsmálningu
augun
glottandi af glettni
góndu á mig…

þekkti hann
svipinn
og vopnið
sem hann bar á mjóu bakinu…

ég hljóp af stað hræddur
hugsandi um síðustu skot
og örin sem fylgdu þeim…

hann hljóp af stað í hefndarhug
hugsandi um örvarnar
sem töpuðust í líkama mínum…



gráti nær sem gunga
gaf ég allt sem ég átti
til að flýja þennan mann…

skríðandi líkt og snákur
smeygði hann sér þó
beint í veg fyrir mig…

augu okkar mættust
eitt örlítið augnablik…



hann mundaði bogann
miðaði betur
sleppti strengnum
og hitti beint í hjartastað…

hvort örin dreyfði ástareitri?
hvort örin lífgi hjartað við?
hvort ég hitti hana einu réttu?
á öllum svörum verður bið…



en Amor hefur aftur hitt
í viðkvæmt hjarta mitt
ekki lengur úr hörðu grjóti
og nú getur það tekið á móti…
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.