í einfeldni æsku sinnar hann árni hló
og æpandi af gleði hann lék sér
alveg þartil alltíeinu pabbi hans dó
eitt ágústkvöld að hausti til - skildist mér
þá kallaði á hann mamma hans myrk í lund
með móðu inná gleraugunum sínum
og færði honum fréttirnar af þeim heimska hund
sem hjó til föður árna niðrí bænum
,,…heyrðu elskan” sagðún ,,eigðu við mig orð…
…elskan mín ég hef svoltið að segja…
í bænum hefur framið fáráðlingur morð
og faðir þinn er rétt við það að deyja
það elti hann úr vinnunni vesalingur einn
með vettlinga úr ull og rauða skó
og uppúr frakkavasanum hann ekki seinn
og æstur til augnanna hníf sinn dró…
…í skyndi hann stakk hann pabba þinn
og nú sofnar hann hljóðlega, vinurinn minn…”
og árni fór að gráta svo gusuðust tár
og gleðin virtist farin endanlega
og mamma fór að skæla því hún var líka sár
sólin skein ekki lengur innilega
en í fangaklefa einum á fróninu sat
fáráðlingur í ullarvettlingum og skóm
hann svaf ekki á nóttunni og borðaði ekki mat
og endurtók í síbylju rámum róm:
,,ég er hvorki gáfaður maður né góður
ég guttann skildi eftir og einstæða móður”
já hann sá á eftir sólskininu
og hann sá á eftir öllu hinu