örmagna
staulast ég áfram
í hugarskógum
dragandi fæturna
eftir forugum vegum

áttavilltur
feta ég stíginn
milli trjánna
í leit að engu

að lokum
hryn ég niður
kraftlaus
og vonlaus

ég hef gengið í hringi

—–

vakna við fuglasöng
með sólina
í augunum

þýtur í laufi
yfir höfði mér

þreytan úr limunum
loksins liðin
nú birtir til
í hugarskógum

og eilífðarganga
í eilífa hringi
virðist skyndilega
bærileg