Ungfrúin var kyssuleg og sett´á varir stút,
kviknakin í lauginni, hún var með rauðan kút.
Og þegar hann sprakk,
þá henti ég hnakk
til hennar og spurði hvort hún vildi ríða út.
Ungfrúin kom uppúr og hún lét mig heyra það,
Sagð´ég væri aumingi og guð má vita hvað
Ég varð aulalegur
Þóttist vera tregur
Og bað hana að setja allar skammirnar á blað.
“Fíflið þitt” hún orgaði og strunsaði á braut
en rann aftur í laugina því hún var ennþá blaut
Sá ég hana detta,
Það var mikil skvetta,
Og mikið var hún kyssuleg, þarna sem hún flaut.
Ég kastaði mér út í laug og vildi orðu fá
fyrir hetjudáðina því það er karla þrá;
ef konum þú bjargar
þá færðu þær margar,
einkum ef þú hvítum hesti ríðandi ert á.
Ég buslaði í vatninu og þá kom mér í hug
hve vatnafuglum erfitt er að koma sér á flug.
Ég spriklaði um stund
því ég kann ekki sund;
laugarverðir höfðu alltaf vísað mér á bug.
Þegar afl að þrotum kom ég beint að botni sökk.
Eðlilega fannst mér þá að framtíð væri dökk.
En ungfrúin bera
reyndist þá vera
fyrirmyndar sundgarpur og kann ég henni þökk.
Hún lagði mig á bakkann þá og sett’ á varir stút,
sagði að sig hefði dreymt um “svoddan labbakút”.
En allra best mér þótti
að hnakkinn hún þá sótti
og hetjur tvær á hvítum hesti saman riðu út.